Leikskólinn Bjartahlíð varð til við sameiningu tveggja leikskóla, Hamraborg í Grænuhlíð 24 og Sólbakka í Stakkahlíð 19. Sameiningin varð þann 1. Júlí 2011. Báðir þessir leikskólar hafa nokkra sögu sem er samofin þróun leikskólastarfs. Rekstur þeirra og starfsemi hefur á hverjum tíma byggst á lögum um leikskólarekstur og
aðalnámskrá leikskóla.
Leikskólinn Hamraborg í Grænuhlíð 24 var byggður árið 1964, sem fjögurra deilda dagheimili fyrir börn frá þriggja mánaða til sex ára. Þá voru dagheimili Reykjavíkurborgar rekin af Sumargjöf. Á dagheimilum dvöldu einkum börn einstæðra foreldra og börn þeirra sem bjuggu við erfiðar félagslegar aðstæður. Árið 1973 tók Reykjavíkurborg/Dagvist barna við rekstrinum og dagheimilinu var breytt í almennan leikskóla. Við þá breytingu varð aldur barnanna 18 mánaða til 6 ára. Alls dvöldu í Hamraborg 85 börn. Aldurskiptingin var tvær yngri deildir og tvær eldri deildir.
Leikskólinn Sólbakki var stofnaður árið 1974 og var í byrjun rekinn af Ríkisspítulum fyrir starfsfólk þeirra. Árið 1995 tóku leikskólar Reykjavíkur við rekstrinum. Leikskólinn var lengst af staðsettur í Vatnsmýrinni við enda Norð-vestur flugbrautarinnar. Í júní 2004 flutti starfsemi leikskólans í nýtt og stærra húsnæði að Stakkahlíð 19 í Reykjavík, þar sem fjöldi barna varð 50 á þremur deildum.
Í sameinuðum leikskóla Björtuhlíð dvelja 127 börn. Bjartahlíð er aldursskiptur leikskóli. Börn frá 18. mánaða til rúmlega þriggja ára eru í Björtuhlíð í Stakkahlíð. Þá flytjast þau í Björtuhlíð í Grænuhlíð þar sem þau ljúka leikskólagöngu við 6 ára aldur.